Fréttabréf  

Ekki missa af neinu!
Þeir sem óska eftir að gerast áskrifendur af fréttabréfi LEK get gert það hér. 

Lesa meira...

   

Hvað er LEK? Hvar get ég skráð mig í LEK?

Þetta eru spurningar sem ég hef oft verið spurður að á undanförnum árum. Af eðlilegum ástæðum þekkja ekki allir eldri kylfingar til LEK og vita ekki um starfsemi þess.

Mér þykir því rétt að segja í stuttu máli frá samtökunum. LEK er skammstöfun fyrir Landssamtök Eldri Kylfinga. Samtökin voru stofnuð í Borgarnesi að frumkvæði Sveins Snorrasonar lögfræðings og fyrrum forseta GSÍ að afloknu landsmóti eldri kylfinga sumarið 1985. Aðdragandinn var sá, að hann hafði haft spurnir af því sumarið 1984, að það hefðu farið fram sveitakeppnir eldri kylfinga frá nokkrum Evrópuþjóðum, bæði í Frakklandi og Ítalíu og til stæði að þriðja mótið færi fram í Luxemburg þá um sumarið.
Vegna kunningsskapar við ráðamenn í Luxemburg fékk Sveinn því áorkað að Ísland gæti sent sveit til keppninnar í Luxemburg. Þeir sem skipuðu fyrstu golfsveit eldri kylfinga frá Íslandi til keppni í EM voru: Þorbjörn Kjerbo, Eiríkur Smith, Svan Friðgeirsson, Vilhjálmur Ólafsson, Sveinn Snorrason og Hólmgeir Guðmundsson. Sveitin stóð sig vel og vann bæði Belga og Hollendinga. Keppendur greiddu sjálfir allan kostnað af þátttökunni.

Það var ljóst, að ef um frekari þátttöku í slíku móti væri að ræða, yrðu eldri kylfingar að stofna með sér samtök og það var gert í Borgarnesi árið eftir.

Síðan 1984 hafa Íslendingar sent lið til Evrópumeistaramótsins, sem haldið er árlega. Fyrst var aðeins keppt með forgjöf, en síðar var einnig keppt án forgjafar og hafa Íslendingar sent tvær sveitir til mótsins síðan. Þá hefur LEK sent kvennasveit skipaða konum 50 ára og eldri til keppni í EM kvenna síðan 1997.
Það mun hafa verið árið 2000, sem ákveðið var að halda Evrópumót fyrir karla, svokallað Evrópumót Super Seniora, 70 ára og eldri og hefur Ísland verið með í þeirri keppni frá byrjun og oft unnið til verðlauna.

Starfsemi LEK hefur farið vaxandi með árunum og sömuleiðis þátttaka í mótum á vegum þess. Það hefur verið ævintýraleg fjölgun á eldri kylfingum frá stofnun LEK árið 1985. Stofnárið munu hafa verið um 200 eldri kylfingar í öllum golfklúbbum landsins og er þá átt við karla 55 ára og eldri og konur 50 ára og eldri, en í dag er talan á sjöunda þúsund.

Það þarf enginn að ganga sérstaklega í LEK, heldur er það þannig að þeir kylfingar, sem eru í einhverjum golfklúbbi og náð hafa ákveðnum aldri (karlar 55 ára og konur 50 ára) teljast sjálfkrafa til hóps eldri kylfinga.

Það greiðir enginn sérstakt gjald til LEK. Hinsvegar hefur LEK sent eldri kylfingum árlega Fréttabréf ásamt gíróseðli og stofnað valkvæða kröfu í heimabanka viðkomandi. Hér er um að ræða frjáls framlög til LEK og enginn er skyldugur að greiða gíróseðilinn eða valkröfuna. Það er rétt að leggja áherslu á að hér er um styrk að ræða til starfsemi LEK og hverjum er í sjálfsvald sett hvort hann greiðir hann eða ekki.

Það að stofna til samtaka eldri kylfinga á sínum tíma var rétt ákvörðun. Samtökin hafa unnið gott starf allt frá stofnun þeirra. Ég held að enginn vilji að þau verði lögð niður. Það er undir okkur, eldri kylfingum komið hvert framhaldið verður.

Ég vil að lokum hvetja alla eldri kylfinga, til að taka þátt í mótum, hvort sem þau eru á vegum einstakra klúbba eða LEK. Aðeins á þann hátt stuðlum við að vexti og viðgangi golfsins og síðan en ekki síst að eigin vellíðan.

Helgi Daníelsson

   

Auglýsingar