Formannafundur GSÍ var haldinn í Golfskálanum í Leiru laugardaginn 17. nóvember og voru mættir fulltrúar flestra golfklúbba landsins en þeir eru nú 65 talsins. Í fjarveru formanns LEK mætti umsjónarmaður heimasíðunnar á fundinn. Þetta var hinn ágætasti fundur þar sem farið var yfir skýrslu stjórnar og lagðir fram reikningar fyrir árið 2012. Eins og skýrslan bar með sér er starf GSÍ mjög fjölbreytt og ber þar hæst ýmis konar störf fyrir golfklúbbana, s.s. rekstur vefsins golf.is, mótahald og mjög öflugt starf varðandi afrekskylfinga á öllum aldri. Þá er útgáfustarf mikið en blaðið Golf á Íslandi kom út fimm sinnum á árinu og er því dreift inn á 13.000. heimili.

Enn hefur orðið fjölgun hjá golfíþróttinni sem hefur nú 16.641. iðkenda innan sinna vébanda og er GSÍ annað stærsta sérsamband ÍSÍ. Merkilegt nok var mesta fjölgunin á árinu hjá kylfingum 55 ára og eldri eða 369 talsins en þar næst í flokknum 22 – 49 ára eða 357 talsins.

Á síðasta þingi GSÍ var stofnaður starfshópur sem skyldi vinna að stefnumótun innar golfhreyfingarinnar. Skilaði hópurinn af sér á formannafundinum og var þar samþykkt að fela stjórn GSÍ að vinna áfram með þær hugmyndir sem hópurinn skilaði af sér.

Á fundinum voru lögð fram drög að mótaskrá GSÍ fyrir árið 2013 og þau mót sem sérstaklega snerta LEK voru sem hér segir í drögunum:

Íslandsmót eldri kylfinga 11. – 13. júlí á Hellu.

Sveitarkeppni eldri kylfinga – 1. deild 16. – 18. ágúst á Akureyri.

Sveitarkeppni eldri kylfinga – 2. deild 16. – 18. ágúst í Öndverðarnesi.

  1. Senior Ladies Team (EGA) 3. – 7. september í Slóveníu.

Gefinn var frestur til 15. desember til að koma með athugasemdir og ábendinar við mótaskrána.