Fréttabréf  

Ekki missa af neinu!
Þeir sem óska eftir að gerast áskrifendur af fréttabréfi LEK get gert það hér. 

Lesa meira...

   

Fundarstjóri, forseti GSÍ, ágætu eldri kylfingar og gestir.

Á aðalfundi er gjarnan litið um öxl yfir það starfsár sem er að líða og mun ég gera hér nokkra grein fyrir því og tæpa á því helsta sem hefur gerst á liðnu starfsári 2010- 2011.

Almennt um árið sem er að líða.

Það var frá upphafi stefnt á að skipuleggja viðmiðunarmótin vel og reyna að dreyfa þeim m.a. með því að fara með 2 mót til Akureyrar sem svo gekk ekki eftir eins og ég kem síðar að.

Við tókum þátt í evrópumótum með fjórum liðum eins og áður, kvennaliði 50+, 2 karlaliðum í 55+ og karlaliði í 70+.

Það var ljóst að fjárhagur LEK var þröngur og möguleikar til fjáraflana, styrkja og auglýsinga voru af okkur metnir þannig að leggja þyrfti mikla vinnu í að halda jafnvægi í fjármálum þessa starfsárs og að það þyrfti að meta allan kostnað af skynsemi.

Það hefur verið mikill metnaður hjá LEK að hafa virka vefsíðu lek.is og hefur Helgi Hólm verið vefsíðustjóri og unnið þar mikið verk í samstarfi við stjórn LEK.

Með skipulagi og aðhaldi í fjármálum hefur okkur tekist að halda vel jafnvægi í rekstri LEK eins og stefnt var að og mun koma hér fram á eftir í yfirferð Helga Hólm í fjarveru Jóhanns Péturs Andersen gjaldkera sem hefur unnið mikið og gott starf í þágu LEK.

Fundir og stjórn.

Stjórn LEK hefur komið saman mjög oft á árinu og hafa verið haldnir yfir 20 formlegir fundir á vegum stjórnar til að vinna í þágu samtakanna, og einnig hafa verið haldnir margir óformlegir. Það hefur verið gríðarlega annasamt hjá stjórninni á þessu ári og vil ég þakka félögum mínum öllum í stjórninni mikla og samstillta vinnu á þessu ári. Ég hef í upphafi hvers starfsárs lagt fyrir grófa verkefnaskiptingu eða starfslýsingu fyrir alla stjórnarmenn og hefur verið unnið samkvæmt því plaggi í aðalatriðum og hefur verið mikil vinna hjá hverjum og einum, sem hefur gengið mjög vel.

Lek síðan

Eins og fram kom á síðasta aðalfundi var ákveðið að halda áfram með þóun vefsíðu LEK og gera átak í að gera hana virkari með upplýsingum fyrir félaga. Á vefsíðunni hafa legið fyrir atburðir ársins umfjöllun um þá fjöldi mynda hefur prýtt vefsíðuna og má segja að vefsíðan sem er í umsjá Helga Hólma að hún sé mjög virk og hafa fjölmargir nýtt sér hana til upplýsinga og fróðleiks. Er Stjórn LEK og Helgi opin fyrir umræðu félaga og ábendingum þar sem alltaf má gera betur. Eins bindum við væntingar við að hinn almenni félagi LEK leggi þar gott til í umræðunni og að á vefsíðunni geti skapast umræðuvettvangur fyrir ýmsa skemmtilega pistla og myndefni til að birta þar.

Mótin 2011 sem LEK kom að.

 10 á þessu ári í hverjum flokki Viðmiðunarmót til landsliðs

 Evrópumót fyrir konur 50+ og karla 55+ og 70+

 Bikarinn milli landsins og höfuðborgarsvæðisins

 Golfgleðin sem fram fór hjá GR Grafarholti.

Viðmiðunarmót á árinu 2011-2012

10 Viðmiðunarmót til landsliðs í öllum flokkum, þar af 4 viðmiðunarmót í haust fyrir landliðssæti 2012.

Viðmiðunarmótin gengu almennt vel þó þurfti að færa 3 þeirra vegna vallaraðstæða.

22. maí í Þorlákshöfn sem var flutt í Sandgerði

22. júlí á Akureyri sem var flutt til Þorlákshafnar

23. júlí á Akureyri sem var flutt að Flúðum

Slíkir flutningar sem við vorum tilneyddir til að framkvæma, eru aldrei þægilegir, þeir kalla á heilmikla samvinnu og rót. Það er aldrei auðvelt og aldrei allir á eitt sáttir, hvorki með að flytja mótin eða hvaða völlur er valin til að taka við, oft með mjög litlum fyrirvara.

Nokkuð góð þátttaka hefur verið í LEK mótum 2011 og er gróf skifting keppenda þannig: Konur 50+ eru um 20%, karlar 55+ eru um 65% og karlar 70+ eru um 15%.

Þannig að hópur karla 55+ hefur verið langfjölmennastur eins og allir vita eða 3-4 sinnum fleiri þátttakendur en í hinum tveim viðmiðunarhópum. Þessi viðmiðunarmót LEK hafa verið mjög vinsæll vettvangur fjölda eldri kylfinga og er það vel, þar sem þetta er stór tekjuliður hjá LEK.

Ég get ekki sagt skilið við viðmiðunarmótin og þeirra umgjörð öðruvísi en að lýsa fyrir hönd stjórnar LEK yfir sérstöku þakklæti við klúbbana og þeirra starfsmenn gagnvart öllum þeim miklu samskiptum sem hafa verið milli þeirra og LEK varðandi viðmiðunarmót og margt fleirra.

Landsliðsferðir 2011,

Hér verður aðeins stiklað á stóru, en áhugasamir geta lesið meira um mótin á lek.is

Landslið kvenna 50 ára og eldri

Landsliðið fór á mót Marissa Sagravatti sem var haldið í 21 sinn,

nú að St. Cloud í Frakklandi dagana 4-8 júlí.

Keppendur

María Málfríður Guðnadóttir

Guðrún Garðars

Steinunn Sæmundsdóttir

Kristjana Aradóttir

Erla Adólfsdóttir

Margrét Geirsdóttir var fararstjóri

Úrslit: Ísland lenti í 7 sæti af þjóðum.

Landslið karla 55 ára og eldri sveit með og án forgjafar fór á EM sem fram í Slóvakíu (og Austurríki) dagana 16-19 ágúst.

Keppnin fór fram í 2 löndum -

Án forgjafar sveitin spilaði á Scoenenfeld vellinum í Austurríki, sem er rétt handan landanmæra við Slóvakíu, en ESGA hafnaði Eurocourt vellinum í Slóvakíu fyrir EM

Keppendur:

Jón Haukur Guðlaugsson liðsstj.

Sæmundur Pálsson

Rúnar Svanholt

Skarphéðinn Skarphéðinsson

Snorri Hjaltason

Tryggvi Þór Tryggvason

Úrslit: A sveitin lenti í 6 sæti af 21 þjóðum

(betri en Svíþjóð, Noregur, Finnland var í 4. sæti.)

Jón Haukur var í 7. Sæti af 126 keppendum á 230 höggum.

Með forgjafar sveitin spilaði á Welten vellinum í Slóvakíu

Keppendur,

Guðjón Sveinsson liðsstj.

Stefán B. Gunnarsson

Ragnar Gíslason

Eggert Eggertsson

Walter Hjartarson

Guðlaugur R. Jóhannsson

Úrslit: B sveitin lenti í 12 sæti af 21 þjóðum

(betri en Svíþjóð, Finnland. Noregur var í 2ja sæti)

Í keppni 21 þjóða og 126 spilara

Ragnar Gíslason var í 8 sæti af 126 keppendum á 214 höggum nettó

President og ladies cup var spilað á Eurovalley vellinum við Bratislava:

Ég er sammála Stjórn ESGA um að halda ekki EM á þeim velli, sem var ástæða þess að annar hluti mótsins færðist yfir á Schönfeldt völlin í Austurríki. Eurovalley völlurinn er ekki alveg tilbúin og mjög sérstakur, ég hef aldrei séð annað eins magn af sandglompum og aðra eins stærð á sandglompum.

Þetta mót er keppni milli forseta golfsambanda 22 þátttökuþjóða og spilandi maka.

Hvorki forseti eða makar keppenda komust í verðlaunasæti að þessu sinni.

í Bratislava var á síðasta forsetafundi m.a. fjallað um notkun fjarlægðarmæla.

Niðurstaða stjórnar ESGA var að það yrði ekki leyft á næsta ári, það væri ekki tímabært það væri ekki mat stjórnar að það væri EM keppnunum til framdráttar, en stjórn ESGA væri meðvituð um að meta stöðuna hverju sinni á næstu árum.

Eins hef ég ítrekað þá ósk eldri LEK félaga að 70+ væru heimiluð afnot af golfbíl í EM keppnum eftir því sem aðstæður og fjöldi bíla sem væru til staðar gæfu tilefni til.

Fékk ég frá ritara ESGA það svar að það væri alltaf í skoðun en ekki fyrirsjáanlegt af praktískum aðstæðum að það yrði heimilað á EM mótum ESGA.

Þess má geta að notkun mæla var tekið upp á síðasta fundi stjórnar í Luxemborg og verður tekið á dagskrá næsta forsetafundar í Króatíu 2012.

Landslið karla 70 ára og eldri fór til Ítalíu daganna 7-10 september í Bonn í Þýskalandi.

Og spiluðu á golfvellinum sem er talinn mjög fallegur og skemmtilegur

Keppendur voru:

Sigurjón R Gíslason Páll Bjarnason Jens Karlsson Helgi Hólm

Pétur Elíasson Hans Jakob Kristinsson

Sveinn Sveinsson úr stjórn LEK var fararstjóri

Sveitin lenti í 8 sæti af 16 þjóðum.

Helgi Hólm var í 21 sæti af 94 keppendum

Almennt um Evrópumót og ESGA.

LEK hefur verið aðili að ESGA European Senior Golf Association mörg undanfarin ár og var farið þess á leit við mig hvort ég gæfi kost á mér í stjórn ESGA þegar framboð til stjórnar væru tilkynnt í Bratislava. Var ég síðan á forsetafundinum í Bratislava valin stjórnarmaður í ESGA til næstu 3ja ára. Við félagar í LEK lítum á þetta sem viðurkenningu fyrir það góða starf sem LEK hefur ætíð unnið bæði hvað varðar hér á landi og einnig í tengslum við ESGA.

Ég mun sérstaklega kappkosta að halda á lofti almennum hagsmunun eldri golfara, og ekki síst vera í góðu sambandi við samtök eldri golfara á norðurlöndum.

Þátttaka okkar í slíkum samstarfi við ESGA og EM mótum þeim tengd er mikilvæg fyrir margra hluta sakir, eins og þið öll getið ímyndað ykkur, að hitta aðra golfara, kynnast nýjum þjóðum og siðum og bera með sér sína menningu inn í slík mót þar sem allir eru jafnir í grunninn þó getan sé eitthvað misjöfn. Og það er alveg ljóst að slík mót tengja norðurlöndin sterkum böndum og hefur verið rætt um frekari samskipti þar. Hitt er líka ljóst í mínum huga að landsliðsmenn eldri kylfinga allra flokka og fararstjórar LEK hafa verið landi og þjóð til mikils sóma í gegn um tíðina.

Lek dagurinn

Var haldinn hjá GK þann. 5.júní kl 9-13

Hann var hugsaður til að ná til sem flestra og ekki síður þá sem ekki eru endilega að keppa til landsliðs.

Önnur tilraun okkar að LEK deginum gaf ekki góðar vonir, það komu alltof fáir. Þeir sem komu voru mjög ánægðir og fannst þetta skemmtilegt en við erum mjög tvístígandi hvort við leggjum aftur í þennan kostnað (sem reyndar er mjög lítill) en umstang og fyrirhöfn er talsverð.

En stjórn LEK er mjög upptekin af því að gera eitthvað hinum almenna LEK félaga sem ekki er endilega að hugsa um að spila sig inní landslið LEK.

Bikarinn Milli Höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar,

þetta var í annað sinn sem LEK var með þátttakendur, en GSÍ bauð 55+ að taka þátt.

Við féllumst á það, þó að þessu sinni hafi Bikarinn borið uppá sömu dagsetningu og Golfgleðin sem ég segi frá undir umfjöllun um Golfgleðina. Það var okkar mat eftir að hafa rætt við marga kylfinga að þetta væri skemmtilegt tækifæri og fyrirkomulag sem vert væri að halda í.

Liðstjórar voru valdir af GSÍ

Fyrir höfuðborgarsvæðið: Rvk. Garðabær, Kópavogur Seltj.nes, liðstj. Garðar Eyland GR

Fyrir landsbyggðina: Hafnarfjörð og restina af landinu var valinn Óskar Pálsson GHR

Þetta er 3ja daga mót á vegum GSÍ.

Leikar fóru svo að Höfuðborgarsvæðið vann Landsbyggðina að þessu sinni 16:8.

Golfgleði 2011

Eftir tilfærslur með dagsetningu fyrir Golfgleðina í Grafarholti þá endaði hún þann 10. sept

Þá kom í ljós nokkru seinna að Bikarinn sem er 3 daga og Golfgleðina komu uppá sömu helgi og olli það okkur í stjórn nokkrum heilabrotum að hafa sést yfir það, þó við höfum hugsanlega helst þá afsökun að LEK félagar hafa aðeins einu sinni tekið þátt í Bikarnum og það samstarf var ekki fast í sessi. En þar sem reynslan var mjög

góð á síðasta ári, og eldri kyldfingar höfðu mjög gaman af þátttöku þar fannst okkur ástaæða til að festa en betur þáttöku LEK í Bikarnum og vera með öðru sinni. Þó að öflugustu kylfingar í röðum LEK tækju þátt í bikarnum en ekki Golfgleðini að þessu sinni.

Við héldum síðan Golfgleðina sem er parakeppni í Grafarholti og varð fljótt góð þátttaka og fór svo að færri komust að en vildu, en við settum fjöldatakmörk við 120 keppendur, einnig var gleðilegt að þó nokkrir þátttakendur sem komu til leiks langt að komnir.

Golfgleðin var leikin í frábæru veðri og gekk allt eins og best verður á kosið og fór síðan fram glæsileg verðlauna afhending undir borðhaldi í Grafarholti strax að leik loknum.

Samstarf við MP um mót ársins hefur gengið vel.

Þó að það hefði mátt vera meiri þátttaka í Opna MP-LEK mótinu.

Við í Stjórn LEK bindum miklar vonir við að þetta samstarf sem var gert til 3ja ára geti skilað LEK nokkrum hagsmunum á næstu 2 árum, en vitum jafnframt að það krefst talsverðrar vinnu af okkar hálfu svo það gangi vel og til þess að MP banki sjái sér hag í því samstarfi.

Vonandi hefur mér ekki sést yfir neitt mikilvægt, sem var nauðsynlegt að kæmi hér fram frá þessu annasama ári sem er að ljúka. En þegar ég fór yfir 20 fundargerðir og fleiri gögn þá sá ég ótalmargt fleira sem hefði verið áhugavert að tíunda hér en læt hér staðar numið í bili .

Breytingar í stjórn.

Eins og fram kemur á eftir undir liðnum kosning stjórnar og varamanna hér á eftir gefa Rósa Margrét Sigursteinsdóttir og Jóhann Pétur Andersen ekki kost á sér í endurkjöri að þessu sinni til stjórnarsetu. Jón H. Karlsson sem var kosinn á síðasta aðalfundi dró sig til baka úr stjórn stuttu eftir aðalfund vegna persónulegra aðstæðna.

Aðrir stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi til starfa í þágu LEK.

Ég mun koma betur að þessu á eftir kosningu stjórnar og varamanna.

ESGA.

Landsamtökum Eldri Kylfinga á Íslandi og því góða starfi sem hér hefur verið unnið á mörgum undanförnum árum var sýndur sá heiður í sumar að velja mig sem fulltrúa Íslands í evrópustjórn eldri kylfinga ESGA European Senior Golfers Association til 3ja ára. Það var gert á aðalfundi samtakanna á EM í Bratislava í Króatíu s.l. sumar. Ég mun kappkosta að sinna því starfi með hagsmuni allra eldri kylfinga að leiðarljósi, ekki síst í samvinnu við norrænu aðildafélögin sem ég hef verið í góðu samstarfi við.

Hvað formannsstarfið hjá LEK varðar, þá hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns LEK eitt ár enn, eins og ég gat um hér áðan.

Ég vil ítreka þakklæti stjórnar LEK til þeirra fjölmörgu sem hafa starfað með LEK á liðnu ári og þann mikla velvilja sem við höfum mætt hjá GSÍ, forystumönnum í golfklúbbum landsins, MP banka sem er aðal styrktaraðili LEK, og hjá fjölmörgum öðrum aðilum sem hafa verið okkur innan handar og greitt götu okkar með ýmsum hætti.

Horft fram á ár 2012.

Fjármál

Stjórn LEK áformar svipuð umsvif þ.e. útgjöld og tekjur fyrir árið 2012 eins kynnt voru í síðasta ársreikningi.

Rekstrarreikningur: Sem eru rekstrartekjur og rekstrarútgjöld, verði í jafnvægi

Þannig að á efnahagsreikningur verði þar handbært fé verði um 4,7 milljónir

Slík niðurstaða mun kalla á mikla vinnu nú eins og áður.

Viðmiðunarmótin 2012

Búið er að gera óskalista að dagsetningum viðmiðunarmóta fyrir árið 2012

sem tekur mið af þeim EM mótum sem eru framundan á árinu, dagsetingar sem þarf að sníða að dagsetningum móta hjá klúbbum strax og þeirra mótadagsetningar eru orðnar endanlegar. Miðað er enn við 10 viðmiðunarmót til landsliðs í hverjum flokki

og með aðeins breyttu sniði hvað verðlaun áhrærir en stjórn LEK hefur ákveðið í samráði við reglugerð sem legið hefur frammi á lek.is að hafa 6 verðlaun í hverju móti. 1. fyrir bestan árangur án forgjafar og 5 verðlaun fyrir flesta punkta. Með þessu móti teljum við okkur fjölga þeim sem hafa möguleika á verðlaunum að jafnaði.

Evrópumót 2012.

55+ EM karla verður haldið í Króatíu dagana 8.til 12. júlí.

70+ EM karla fer fram í Austurríki dagana 7. – 10. ágúst.

50+ Marisa Sgaravatti Trophy verður haldin í Finnlandi dagana 16.-20. júli. Stjórn LEK er nú að athuga fleiri kosti fyrir landslið kvenna 50+ fyrir árið 2012.

EM mót 55+ og hugsanlega mót kvenna 50+ verða mjög snemma í ár og setja pressu á bæði skipulag viðmiðunarmóta og að ganga frá farmiðum á þátttakendanöfn sex vikum fyrir brottför. Flugleiðir hafa verið sérlega óliprir gagnvart öllum nafnabreytingum sem hefur kostað LEK nokkrar upphæðir þrátt fyrir að vera með sætin pöntuð tímalega.

Varðandi mót á næsta ári:

Núverandi stjórn LEK hefur ekki ákveðið hvort og þá hvaða landslið verða send til keppni á vegum LEK á árinu 2012, það mun nýkjörin stjórn fjalla um að aðalfundi loknum.

Opið mót MP banka og LEK

LEK miðar við að MP mun í samvinnu við LEK standa fyrir opnu mót fyrir eldri kylfinga. MP mun væntanlega um glæsileg verðlaun í þessu fjáröflunarmóti LEK og er mikið í húfi að það takist sem best til.

Ísland- Luxemborg vináttulandskeppni var haldinn 2010. Á næsta ári, 2012, verður skoðað í samvinnu við GSÍ að endurtaka keppnina á Íslandi.

Bikarinn milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar. Áformuð tímasetning 7.-8. september í GKG.

LEK dagur 2012

Hefur verið undanfarin tvö ár en ekki hefur verið áformað með opinn LEK dag 2012 þar sem aðsókn hefur verið mun dræmari undanfarin tvö ár en vonir stóðu til.

Golfgleði 2012

Verður í lok tímabils með hefðbundnu sniði eins og verið hefur undanfarin ár.

Golfgleðinn verður væntanlega um miðjan september 2012.

Landsmót UMFÍ 50+ verður í Mosfellsbæ 2012.

Í því sambandi má nefna að við erum að skoða samvinnu og þátttöku í Landsmóti UMFÍ 50 + sem haldið verður í Mosfellsbæ helgina 8. – 10. júní. Þar verður keppt í golfi og pútti eins og gert var á síðasta móti sem haldið var á Hvammstanga ( golfið var á Skagaströnd) og gekk mjög vel. Við erum í sambandi við móthaldara um hvort og þá hvernig LEK geti komið að því starfi.

Fjárhagsáætlanir ársins 2012.

Við í stjórn LEK bindum vonir við að geta haft svipaðar tekjur og styrki eins og fram hefur komið í yfirsýn þeirra fjármála sem hér voru kynnt áðan. Eins bindum við vonir við að samstarfið við MP banka verði áfram farsælt. Sömuleiðis að LEK félagar verði duglegir við að greiða styrktargjaldið sem fyrr.

LEK síðan okkar, lek.is

Ég vil hvetja LEK félaga til að fara sem oftast inná nýja heimasíðu LEK (http://www.lek.is) og nýta sér þær upplýsingar sem þar er að finna m.a. um:

Aðalfund LEK, stjórn LEK, lög og reglugerðir, dagsetningar viðmiðunarmóta 2012, úrslit og stig til landliðs, einnig upplýsingar um landsliðsferðir á vegum LEK og vonandi margt fleira. Og síðast en ekki síst óskum við í stjórn LEK þess að félagar séu í sambandi við okkur með hinar ýmsu upplýsingar, fræðslu og ábendingar sem gæti nýtst LEK.

Styrktarfélagagjald.

Styrktarfélagsgjald er ákveðið kr.1500 fyrir 2012.

Nú í janúar fer undirbúningur næsta árs á fulla ferð hjá nýrri stjórn.

Þrátt fyrir að aðstæður í íslensku samfélagi séu og verði áfram erfiðar og óvissar þá tel ég að við kylfingar getum verið þakklátir fyrir þær góðu golfaðstæður sem okkur eru búnar hér á landi. Er það von okkar í stjórn LEK að sem flestir kylfingar eigi þess kost að nýta sér vel okkar góðu golfvelli á komandi golfsumri og verði virkir félagar í LEK og þar í leik og starfi.

Þakka öllum gott samstarf og óska okkur og ykkur öllum árangursríks golfárs.

Henrý Þór Gränz formaður LEK.

   

Auglýsingar